Reykjavíkurleikarnir eru haldnir til að auka samkeppnishæfni íslenskra íþróttamanna og draga úr ferðakostnaði þeirra með því að búa til einstakan alþjóðlegan viðburð hér í Reykjavík sem dregur til sín sterka erlenda keppendur.
Reykjavik International Games fer fram í átjanda sinn dagana 22.- 8. febrúar 2025. Það er Íþróttabandalag Reykjavíkur í samstarfi við sérsambönd ÍSÍ og íþróttafélögin í Reykjavík ásamt dyggum samstarfsaðilum sem standa að leikunum.
Reykjavik International Games er mikil íþróttahátíð þar sem keppt er í 15-20 einstaklingsíþróttagreinum. Flestir mótshlutarnir fara fram í Laugardalnum og nágrenni hans. Keppnin skiptist niður á tvær mótshelgar en einnig er ráðstefna hluti af dagskránni.
Nánari upplýsingar um leikana eru veittar á skrifstofu ÍBR:
Íþróttabandalag Reykjavíkur
Engjavegi 6
104 Reykjavík
ibr@ibr.is
Hugmyndin að því að halda afreksíþróttamót fjölmargra íþróttagreina yfir sömu helgina sprettur annars vegar af frumkvæði forráðamanna frjálsíþróttadeildar ÍR og Sundfélagsins Ægis sem höfðu haldið alþjóðleg mót í janúar um tveggja áratuga skeið. Hins vegar kviknaði sú sama hugmynd þegar Íþróttabandalag Reykjavíkur hélt velheppnaða Alþjóðaleika Ungmenna í Laugardalnum árið 2007 (International Children's Games). Það var svo af frumkvæði Þráins Hafsteinssonar frjálsíþróttaþjálfara ÍR og Gústafs Adolfs Hjaltasonar formanns Sundfélagsins Ægis að þessari hugmynd var hrint í framkvæmd og hafist handa við undirbúning fyrstu Reykjavíkurleikanna en þeir fóru fram árið 2008.
Fyrstu árin fóru leikarnir fram á einni helgi og var þá fjöldi mótshluta 8-12. Árið 2013 var keppninni fyrst skipt niður á tvær helgar og hafa mótshlutarnir síðan þá verið 16-20 talsins. Fyrstu árin voru erlendir gestir um 200 talsins en árið 2019 fóru þeir í fyrsta sinn yfir 700. Um 1500-2000 íslenskir íþróttamenn taka þátt í leikunum ár hvert.